Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að aðild að Evrópusambandinu hafi aldrei átt mikinn hljómgrunn meðal framsóknarmanna.
Hann segir að meðan það sjónarmið réð ferðinni hjá Framsóknarflokknum að standa gegn aðild að ESB var flokkurinn einhuga og vann marga sigra,var stærsti flokkurinn í flestum kjördæmum landsbyggðarinnar kosningar eftir kosningar. „Í mínum huga og margra fleiri verður Steingrímur Hermannsson einn af þeim stærstu þegar stjórnmálasaga síðustu aldar verður skráð og nafn hans mun lengi uppi í umræðunni. Þessi lífsskoðun hans var sett fram af sannfæringu.
Nú hefur sonur hans, Guðmundur, yfirgefið flokkinn út af vaxandi andstöðu við ESB í flokknum. Flokkurinn stækkar, ESB-andstæðingar eru að koma til baka og telja sig jafn réttháa og aðildarsinna að ræða þetta stærsta mál samtímans. Guðmundur hefur fullt frelsi til að aðhyllast ESB, það hafa líka flokksmenn Framsóknarflokksins," skrifar Guðni.
Guðni segir að Guðmundur sé kannski bara krati sem langi heim í Samfylkinguna aftur, það þurfa að vera góðir menn í öllum flokkum. „Þar eru margir hans bestu vinir og æskufélagar, hann varð varaþingmaður Samfylkingarinnar og aðstoðarmaður Dags B. Eggertsonar borgarstjóra áður en hann ákvað að gerast vinnumaður á höfuðbóli feðra sinna. Vissulega sakna ég hans, þótt mér hafi ekki þótt mikið fara fyrir honum, hvorki í flokknum né á Alþingi sl. tvö ár. Ég var farinn að óttast að svona væri í pottinn búið."
Guðni talar um að hópur aðildarsinna innan Framsóknarflokksins hafi farið mikinn og gert rætnar árásir á aðra innan flokksins. „Ég sá mig knúinn til að segja af mér formennsku og þingmennsku haustið 2008 eftir hörð átök og rætin við þetta fólk á miðstjórnarfundi. Það gerði ég til að vekja grasrót flokksins og sannarlega gekk flokkurinn í endurnýjun lífdaganna með flokksþinginu 2009 og ungum formanni sem sá og sigraði. Kosningarnar til Alþingis um vorið sýndu umskipti eins og allar skoðanakannanir síðan.
Sigmundur Davíð hefur í ræðu og riti bent á sögu og störf flokksins sem leiðarstjörnu inn í framtíðina. Óskari Bergssyni, sem hafði friðað borgarstjórnina og byggt á stuttum tíma upp öflugan borgarstjórnarflokk Framsóknarflokksins, var bolað út með slægð og undirróðri af þessu harðsnúna liði. Enda féll Reykjavík úr hendi flokksins í borgarstjórnarkosningunum með áhrifum á allt höfuðborgarsvæðið. Bryndís Gunnlaugsdóttir, fyrrverandi formaður SUF, hefur farið fyrir þessum hópi opinberlega síðustu þrjú árin en hún sagði af sér varaþingmennsku í Suðurkjördæmi en ætlar að hanga á bæjarlaununum í Grindavík áfram og lét eftirmann sinn, formann SUF, segja af sér formennsku. Rök þeirra beggja voru léttvæg og snerust um dylgjur um formanninn. Þau hafa bæði misst traust sitt og trúnað í flokknum hvar sem þau verða," skrifar Guðni.
Grein Guðna er hægt að lesa í heild í Morgunblaðinu í dag.