Ríflega 40% aðspurðra í könnun sem Capacent Gallup gerði að ósk stuðningsmanna Hönnu Birnu Kristjánsdóttur treysta henni best til að leiða Sjálfstæðisflokkinn. Til samanburðar nefndi 11,1% aðspurðra Bjarna Benediktsson, núverandi formann flokksins, að því er fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Að sögn Hönnu Birnu er könnunin ekki á hennar vegum.
Þá nefndu 7,6% Kristján Þór Júlíusson, 5,5% Ólöfu Nordal og 1,9% Guðlaug Þór Þórðarson.
Afgangurinn, eða 28,3% aðspurðra, skilaði hins vegar auðu, ef svo má að orði komast um skoðanakönnun.
Til samanburðar nefndu 51,4% aðspurðra sjálfstæðismanna nafn Hönnu Birnu en 24,3% nafn Bjarna Benediktssonar.
Alls voru 1.320 í úrtaki og var svarhlutfall um 60%. Tóku þar af 80% afstöðu.
Könnunin var gerð á netinu 7.-14. júlí í sumar.
Hafa úrslitin verið kunngerð forystu Sjálfstæðisflokksins, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
En eins og tekið var fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 hefur fylgi Sjálfstæðisflokksins síðan aukist í könnunum og staða Bjarna sem formanns því ef til vill styrkst.