VG vildi stöðva uppboð

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Eggert Jóhannesson

Samþykkt var á landsfundi Vinstri grænna í mars 2009, tveimur mánuðum fyrir sigur vinstriflokkanna í apríl sama ár, að eignir sem Íbúðalánasjóður þyrfti að leysa til sín rynnu til félagslegra leigufélaga. Þá benti formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, á frumvarp VG um að nauðungaruppboð skyldu stöðvuð.

Þetta er hér rifjað upp í tilefni af nýjum tölum frá sýslumönnum á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík um fjölda uppboða það sem af er árinu en í þeim kemur fram að um 250 uppboð séu fyrirhuguð í umdæmum sýslumannanna á næstu fjórum vikum.

Hrina uppboða heldur því áfram, á sama tíma og birst hafa fréttir af því að tekjulágir eigi erfitt með að standa undir himinhárri húsaleigu. Þá má rifja upp að í setningarræðu sinni á sama landsfundi benti Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sérstaklega á frumvarp sem flokkurinn hefði lagt fram á þingi um stöðvun nauðungaruppboða. 

Er sú afstaða áréttuð í verkefnaskrá minnihlutastjórnar VG og Samfylkingar í febrúar 2009 en tekið skal fram að tímamörk eru þar tilgreind á því hversu lengi nauðungaruppboðum skuli frestað. Þannig sagði orðrétt í verkefnaskránni: „Ríkisstjórnin mun í febrúar leggja fram frumvörp til laga á Alþingi um greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun gengistryggðra lána og frestun nauðungaruppboða vegna íbúðarhúsnæðis í allt að sex mánuði meðan reynt verður að tryggja búsetuöryggi til frambúðar.“

Nú, tveimur og hálfu ári síðar, er staðan sú að minnst 2.000 eignir munu fara í lokauppboð á árinu 2010 og 2011 hjá sýslumönnum á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík, að því gefnu að fyrirhuguð útboð fari fram og engin önnur bætist við. En það er vitaskuld óraunhæft.

Hjálpa átti hinum efnaminni  

Orðrétt sagði í samþykktri ályktun VG á landsfundinum 2009.

„Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar–græns framboðs leggur til að Íbúðalánasjóður taki upp félagsleg íbúðalán til tekjulágra fjölskyldna og þeirra sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Jafnframt telur landsfundurinn að grípa eigi til aðgerða sem auðvelda húsnæðissamvinnufélögum og félagasamtökum á borð við Búseta, Búmenn, Öryrkjabandalagið og samtök námsmanna að eignast leigu- og kaupleiguíbúðir.

Renna þarf styrkari stoðum undir starfsemi húsnæðissamvinnufélaga og annarra leigufélaga með breytingum á reglum Íbúðalánsjóðs. Eignir sem Íbúðalánsjóður þarf að leysa til sín frá verktökum, leigufélögum og almenningi renni til félagslegra leigufélaga. Markmið þessara aðgerða er að öflugur almennur leigu- og kaupleigumarkaður á vegum sjálfseignarstofnana verði til samhliða eignaíbúðamarkaðinum.

Tryggja þarf jafnræði milli þeirra sem fá greiddar húsnæðisvaxtabætur og þeirra sem njóta húsaleigubóta með því að hækka báða bótaflokka í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka