Vogunarsjóðir fá heimilin

Reykjavík séð frá Hallgrímskirkjuturni
Reykjavík séð frá Hallgrímskirkjuturni Ómar Óskarsson

Það er „ömurleg staða“ að vogunarsjóðir skuli nú leysa til sín fasteignir skuldsettra heimila og selja þær á markaðsverði, eftir að hafa tekið yfir húsnæðisskuldir á niðursettu verði. Þetta er mat Þorleifs Gunnlaugssonar, varaborgarfulltrúa VG, en hann hefur komið að gerð húsnæðisstefnu VG.

Þorleifur harmar að Vinstri grænir skuli ekki hafa beitt félagslegum úrræðum í meira mæli í landsstjórninni, enda hafi ríkisstjórnin verið í einstakri stöðu til þess í kjölfar bankahrunsins.

Með tilvísun í vogunarsjóði vísar varaborgarfulltrúinn til eignarhalds á Íslandsbanka og Arion banka. Landsbankinn er hins vegar sem kunnugt er að mestu leyti í eigu ríkisins.

Ríkið var í einstakri stöðu

Þorleifur telur að fasteignalán heimilanna hefðu aldrei átt að falla í hendur vogunarsjóða.

„Ríkið var í einstakri stöðu til þess að gera grundvallarbreytingar á húsnæðismarkaðnum í kjölfar hrunsins. Ríkið átti megnið af húsnæðislánunum í gegnum eignarhald sitt á bönkunum. Ríkið var því í þeirri stöðu að geta sett lánin inn í Íbúðalánasjóð eða byggt upp sanngjarnan húsnæðismarkað í gegnum félagsleg húsnæðisfélög.

Þá var ríkið í þeirri stöðu að geta lækkað húsnæðislánin í stað þess að láta bankana hafa þau með affölum.“

„Ríma ömurlega við raunveruleikann“

- Hvernig koma fyrirheit VG í húsnæðismálum heim og saman við stöðuna á fasteignamarkaði í dag?

„Markmið VG í húsnæðismálum ríma ömurlega við raunveruleikann. Heimilin eru nú undir hamrinum. Hér varð mikill forsendubrestur. Fasteignalánin hækkuðu mikið við hrunið. Svo bætist það við að fólk missir vinnuna og hefur því ekki tekjur til þess að borga af lánunum. Þess vegna er fólk að missa húsnæði sitt í dag.

Ríkisstjórnin gaf til skamms tíma þau fyrirheit að hún myndi bjarga skuldugum heimilum út úr þessum vanda og að fólk fengi sanngjarna úrlausn sinna mála.

Nú, loksins þegar Íbúðalánasjóður er að setja íbúðir á leigumarkað, er hann að gera það á markaðsverði,“ segir Þorleifur og bendir á að margir eigi erfitt með að ráða við leiguverðið eins og það er á markaðnum í dag.

Vanefndir í húsnæðismálum

Hann svarar því síðan aðspurður til að stjórnvöld hafi ekki efnt loforð sín í húsnæðismálum.

„Svarið er nei. Það er að mínu mati ömurlegt að vogunarsjóðir séu að leysa til sín eignir í dag. Þarna er um að ræða grunnþörf fólks og að vogunarsjóðir skuli vera búnir að leysa til sín fjölda heimila er vitaskuld ömurleg staða,“ segir Þorleifur Gunnlaugsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert