Óskýrt hlutverk borgarstjóra

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir hag / Haraldur Guðjónsson

„Við sátum hjá við atkvæðagreiðsluna vegna þess að við erum mjög hugsi yfir því hversu frjálslega þau fara með að láta kerfið þenjast út,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, um hið nýstofnaða embætti borgarritara hjá Reykjavíkurborg. 

Sjálfstæðimenn sátu hjá þegar borgarráð samþykkti fimmtudaginn sl. að stofna hið nýja embætti. „Okkur finnst líka að það þurfi að ræða það hversu margir aðilar eigi að vera í hlutverki staðgengils borgarstjóra og hvernig eigi nákvæmlega að skilgreina þá hans hlutverk, með hliðsjón af því hverjir aðrir taka af honum ákveðin verkefni,“ segir Hanna Birna. „Það þýðir ekki endilega að við séum á móti því að borgarritari starfi hjá Reykjavíkurborg en við hefðum kosið að sá aðili væri ekki með þeim hætti sem þarna er stillt upp, með svo beinum hætti tengdur borgarstjóra eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, heldur væri það þá sjálfstæðara embætti. Okkur finnst orðið dálítið óskýrt hvaða verkefnum borgarstjóri sinnir og hvaða verkefnum einhverjir aðrir sinna fyrir hann.“

Hanna Birna segir endalausar breytingar í stjórnkerfi borgarinnar bera þess merki að menn séu ekki að ná neinni hagræðingu heldur sé stöðugt verið fjölga störfum og verkefnum.

„Eins og tillagan lítur út er þessi aðili inni á skrifstofu borgarstjóra sem hlýtur að gera það að verkum að þau verða að ráða skrifstofustjóra borgarstjóra líka,“ segir Hanna Birna en Regína Ásvaldsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, hefur verið staðgengill borgarstjóra í tæpt ár. Hún hefur sagt upp störfum og tekur við nýju starfi framkvæmdastjóra þekkingarseturs um samfélagslega ábyrgð í október næstkomandi. Hún mun þó gegna starfi borgarritara þar til ráðið hefur verið í stöðuna.

Skv. vef Reykjavíkurborgar mun borgarritari verða staðgengill borgarstjóra en skrifstofustjóri borgarstjóra hefur til þessa gegnt því starfi. Borgarritari mun bera ábyrgð á miðlægri stjórnsýslu og stoðþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar og hafa aðsetur á skrifstofu borgarstjóra sem mun heyra undir embætti hans, en að auki munu borgarhagfræðingur, fjármálaskrifstofa, mannauðsskrifstofa, mannréttindaskrifstofa, innkaupaskrifstofa, upplýsingatæknimiðstöð og þjónustuskrifstofa heyra undir embættið. Einnig mun borgarritari bera ábyrgð á rekstri Ráðhúss og Höfðatorgs.

Eitt fyrsta verkefni borgarritara verður að skilgreina og endurskipuleggja miðlæga þjónustu Reykjavíkurborgar til að einfalda hana og styrkja með það að markmiði að fækka skrifstofum og ná fram hagræðingu í rekstri.

„Þetta er nákvæmlega sama markmið og sett var fram þegar starf skrifstofustjóra borgarstjóra, sem nú hefur óskað lausnar, var gert umfangsmeira en hafði verið. Þá hlýtur maður að spyrja hvar sú vinna sé stödd sem átti að fara í gang fyrir ári,“ segir Hanna Birna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka