„Ég vil fá á hreint hvað átti sér stað“

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir í hópi þingmanna á Alþingi.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir í hópi þingmanna á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að ýmislegt hafi komið sér á óvart að undanförnu varðandi Magma-málið. Hún segist búast fastlega við því að málið verði rætt fljótlega innan flokksins, með tilliti til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið að undanförnu og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.

Hefur eitthvað af þeim upplýsingum sem fram hafa komið að undanförnu um samskipti Steingríms J. við Ross Beaty komið þér á óvart? „Það er ýmislegt sem hefur komið mér á óvart í þessu máli og þess vegna hef ég verið að bíða eftir rannsókn á því. Mörgum spurningum er ósvarað, en ég er ekki búin að gefa upp alla von um að það verði undið ofan af einkavæðingunni. En ég vil fá á hreint hvað átti sér þarna stað.“

Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir hún, að aðalatriðið í þessu öllu sé, að ríkisstjórnin hafi lofað því að undið yrði ofan af einkavæðingu í orkugeiranum. „Það hefur enn ekki verið leitt til lykta og það stendur ennþá upp á ríkisstjórnina að efna þetta loforð,“ segir Guðfríður Lilja.

„Því var líka lofað að rannsaka alla þætti Magma-málsins, alveg frá upphafi og koma með það allt upp á yfirborðið, ekki síst að afhjúpa hin viðskiptalegu og pólitísku tengsl. Það loforð hefur ekki verið efnt, en það er brýn nauðsyn að það verði staðið við það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka