Er reiðubúinn að fara til Brussel

Jón Bjarnason.
Jón Bjarnason. mbl.is/Kristinn

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagðist á Alþingi í dag vera reiðubúinn til að fara til Brussel og hitta „hina háu herra" til að komast að því hvers væri verið að krefjast varðandi þá áætlunargerð sem Evrópusambandið vildi að Íslendingar hæfu vegna viðræðna um landbúnaðarmál.

Rætt var utan dagskrár á Alþingi í dag um stöðuna í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. 

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem hóf umræðuna, sagði að það blasti við öllum þeim sem kynntu sér niðurstöðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í rýniskýrslu um stöðuna í aðildarviðræðunum um landbúnaðarmál, að þar væri krafist nákvæmrar áætlunar um það hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu að uppfylla kröfur ESB áður en viðræðurnar hæfust.

„Í þessu felst að sjálfsögðu sú afstaða af Evrópusambandsins hálfu, að það er gengið út frá því sem vísu, að íslensk stjórnvöld ætli sér að taka upp löggjöf Evrópusambandsins á Íslandi," sagði Bjarni.

Jón Bjarnason sagði að stærstu tíðindin í rýniskýrslunni væru þau að Evrópusambandið kysi að beita svonefndum opnunarskilmálum til að samningaviðræður um landbúnað- og dreifbýlisþróun gætu hafist. Þá væri ekki að sjá að ESB tæki tillit til krafna Íslands um styrkjakerfi, sem hentað íslenskum aðstæðum betur en núverandi styrkjakerfi Evrópusambandsins gerði.

Össur Skarðhéðinsson utanríkisráðherra sagði rétt að kröfur sem Evrópusambandið setti fram um áætlanagerð Íslendinga væru ekki sérlega skýrar. Ástæðan væri sú að það væri Íslendingum nánast í sjálfs vald sett, með hvaða hætti þeir ætluðu að útfæra hina tímasettu áætlun.

Össur sagði að í rýniskýrslunni féllist Evrópusambandið í fyrsta skipti  formlega á þá kröfu Íslendinga að aðildarsamningunum við Evrópusambandið yrði háttað þannig að áður en fyrir lægi jáyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði ekki ráðist í það að breyta lögum, reglum eða uppbyggingu íslenskra stofnana.

Í staðinn hefðu hefðu íslensk stjórnvöld boðist til að sýna fram á það, með tímasettum áætlunum, hvenær, eftir að þjóðaratkvæðagreiðslu sleppti og þar til Íslendingar yrðu orðnir fullgildir aðilar að ESB, tilteknar breytingar yrðu gerðar. Engum þyrfti að koma á óvart hvað í því fælist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert