Ferðalög starfsmanna utanríkisráðuneytisins og embættismanna undirstofnana kostuðu skattgreiðendur 98 milljónir króna á síðasta ári. Er það heldur hærri fjárhæð en á árinu 2009 en svipuð að krónutölu og 2007. Kostnaðurinn var mun meiri hrunárið, 2008.
Á Alþingi var í dag dreift svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um ferðalög á vegum ráðuneytisins. Þar vantaði upplýsingar um kostnað, sem um var spurt.
Utanríkisráðuneytið kveðst hafa sent upplýsingar um kostnað til þingsins og birti í kvöld skjal með svari ráðuneytisins í heild.
Þar kemur fram að kostnaður við ferðir starfsfólks ráðuneytisins hækkaði úr 71 milljón 2009 í 80 milljónir 2010 og er svipaður í krónutölu og 2007. Dagpeningar eru innifaldir.
Þegar litið er á ráðuneytið, sendiskrifstofur erlendis og stofnanir á vegum ráðuneytisins sést að kostnaðurinn var um 98 milljónir í heild á síðasta ári, 6 milljónum meira en 2009. Ferðakostnaðurinn er svipaður og 2007 en á árinu 2008 fór hann upp í yfir 140 milljónir.