Framtakssjóður Íslands hefur keypt 15,8% hlutafjár í verslunar- og þjónustufyrirtækinu N1 af Íslandsbanka hf. og Glitni.
Jafnframt hefur Framtakssjóðurinn gert samkomulag við Íslandsbanka hf. og nokkra aðra aðila, m.a. lífeyrissjóði sem eiga fyrir hlut í N1, um að leggja hlutabréf sín inn í sameiginlegt félag. Það félag mun fara með meirihluta hlutafjár í N1 og leiða áfram þróun og uppbyggingu félagsins. Stefnt er að skráningu N1 í kauphöll á árinu 2013.
Í viðskiptunum nú kaupir Framtakssjóður alls um 10,3% hlutafjár í N1 af skilanefnd Glitnis og um 5,5% af Íslandsbanka. Eftir viðskiptin á skilanefnd Glitnis ekki hlut í N1.
Endanlegt kaupverð Framtakssjóðsins mun ráðast af niðurstöðu rekstrar á árinu 2011 en tekur mið af heildarvirði félagsins við fjárhagslega endurskipulagningu þess. Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.