Landsvirkjun hefur undirritað viljayfirlýsingar við þrjú fyrirtæki um nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum. Upplýsingunum hefur af viðskiptaástæðum verið haldið leyndum gagnvart almenningi. Verði af samningum þýðir þetta að álver við Húsavík er úr sögunni. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Bandaríska álfyrirtækið Alcoa hefur í yfir sex ár undirbúið álver á Bakka en nú bendir flest til að það verkefni sé að renna út í sandinn.
Stöð 2 skýrði frá því í mars að þýska fyrirtækið PCC væri í viðræðum við Landsvirkjun um að reisa kísilverksmiðju við Húsavík. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 liggur þegar fyrir viljayfirlýsing milli Landsvirkjunar og PCC um 50 megavött og var hún undirrituð í vor með mikilli leynd. Þegar leitað var svara hjá Landsvirkjun í dag var því hvorki játað né neitað.
Heimildir fréttastofu greina einnig frá því að Landsvirkjun sé búin að undirrita viljayfirlýsingu við tvö önnur fyrirtæki um orku Þingeyinga. Getum er að því leitt að annað þeirra sé finnska fyrirtækið Kemira, en fram kom á Stöð 2 í vor að það hefði hug á að reisa sódíumklórat-verksmiðju á Bakka sem þyrfti 40 megavött. Þriðja fyrirtækið með undirritaða viljayfirlýsingu, og það eina sem Landsvirkjun hefur opinberað, er Carbon Recycling, sem vill kaupa 50 megavött fyrir metanólverksmiðju við Kröflu.