Ráðherra uppvís að ósannindum

Frá fundi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, með Ross Beaty, forstjóra …
Frá fundi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, með Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, í ágústmánuði fyrir tveimur árum. mbl.is/Heiddi

Steingrímur J. Sigfússon sagði í viðtali við Morgunblaðið sl. föstudag að aldrei hefði staðið til og engin tilraun verið til þess gerð að hafa áhrif á við hverja HS Orka myndi semja um orkukaup.

Í viðtalinu sagðist hann á hinn bóginn hafa rætt um áhuga á að tryggja hér fjölbreytni í atvinnulífinu og að það væri kostur ef fleiri aðilar gætu nýtt sér orkuna.

Þá hafi hann rætt við forstjóra Magma Energy um að Magma myndi aldrei ásælast meira en 50% í HS Orku en ekkert samkomulag hafi náðst um það.

Í þessu samhengi er áhugavert að rýna aðeins nánar í þau gögn frá fjármálaráðuneytinu, sem það lét hagsmunaaðilum vegna álvers í Helguvík í té, með skírskotun til upplýsingalaga og greint var frá í fréttum og fréttaskýringum hér í Morgunblaðinu á fimmtudag og föstudag í síðustu viku.

Í þeim gögnum kemur skýrt fram að það eru ósannindi Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, að aðeins hafi verið um einn fund með Ross Beaty og munnleg samskipti að ræða og að það hafi „aldrei (verið) rætt um að það ætti að binda það á einhvern hátt í samkomulag...“ eins og ráðherrann orðaði það í viðtalinu við Morgunblaðið á föstudag.

Æðstu embættismenn

Æðstu embættismenn fjármálaráðuneytisins, þeir Indriði H. Þorláksson, þáverandi ráðuneytisstjóri, og Guðmundur Árnason, núverandi ráðuneytisstjóri, áttu í samskiptum við forsvarsmenn Magma og ráðgjafa þess fyrirtækis og gerðu breytingartillögur á drögum að viljayfirlýsingu, sem höfðu efnislega mikla þýðingu. Ætla verður, að æðstu embættismenn í fjármálaráðuneytinu taki ekki slíkar ákvarðanir án samráðs við ráðherra sinn.

Í þessu sambandi er rétt að árétta það sem þegar kom fram hér í Morgunblaðinu í fréttaskýringu sl. fimmtudag:

Þann 24. ágúst 2009 sendi Magnús Bjarnason, sem starfaði sem ráðgjafi hjá Geysir Glacier, sem var ráðgjafafyrirtæki sem vann fyrir Magma Energy, punkta til fjármálaráðuneytisins (MOU - Drög að viljayfirlýsingu). Þar kom ekkert fram um að breikka ætti viðskiptamannahóp HS Orku. Guðmundur Árnason, núverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, svaraði og sagði m.a.: „...við getum lagst yfir orðalagið....“

Nokkrum dögum síðar, eða 26. og 29. ágúst, senda Guðmundur og Indriði síðan ensk drög að sameiginlegri viljayfirlýsingu (MOU) til Magma.

Í þeim drögum var komin inn setningin: „Magma and HS Orka will seek to diversify HS Orka‘s customer base by attracting environmentally friendly industry to Iceland.“

Í íslenskri þýðingu útleggst þessi texti eitthvað á þessa leið: Magma og HS Orka mumu leita leiða til þess að auka fjölbreytileika í viðskiptamannahópi HS Orku, með því að reyna að laða til Íslands fjárfesta sem vilja leggja í umhverfisvæna iðnaðaruppbyggingu.“

Í fylgipósti Indriða H. Þorlákssonar, þáverandi ráðuneytisstjóra, segir jafnframt: „revision of the terms of the lease contract is of utmost importance,“ sem útleggst á íslensku að endurskoðun á leigusamningi sé gríðarlega þýðingarmikil.

Miðað við gögnin sem fyrir liggja úr fjármálaráðuneytinu fer ekkert á milli mála, að það er fjármálaráðuneytið sem hefur sett þetta skilyrði inn.

Hver var skýringin?

Hvers vegna ætti Magma að vilja takmarka sinn viðskiptavinahóp?

Ekkert fyrirtæki, samkvæmt skilningi blaðamanns, vill hafa slík skilyrði inni í rammasamkomulagi, því þau ganga, að sögn, þvert á arðsemishugmyndir fyrirtækja, en markmiðið er jú að hámarka arðsemi.

Ekki fer á milli mála, að það var fjármálaráðuneytið sem stýrði pennanum í þessum samningaviðræðum við Magma og ráðgjafa þess og að þáttur fjármálaráðuneytisins var mun meiri en fjármálaráðherra hefur viljað láta líta út fyrir. Sést það glöggt þegar litið er til tölvupóstsins frá Tim Spanos, ráðgjafa Ross Beaty, þar sem hann svarar Indriða H. Þorlákssyni, Guðmundi Árnasyni, Agli Tryggvasyni og Steingrími J. Sigfússyni með orðunum: „Indriði, we have accepted your proposed changes.“ Sem á íslensku útleggst: „Indriði. Við höfum fallist á breytingartillögur þínar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert