Segja ráðherra ganga gegn vilja íbúa

Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri Vesturbyggðar
Ásthildur Sturludóttir er bæjarstjóri Vesturbyggðar

Bæjarstjórn Vesturbyggðar lýsir yfir vonbrigðum með ákvörðun innanríkisráðherra um vegabætur á sunnanverðum Vestfjörðum í ályktun sem bæjarstjórnin hefur sent frá sér.

„Með tillögunni um hina svokölluðu D-leið er gengið þvert á vilja íbúa og annarra hagsmunaaðila í fjórðungnum enda hefur leiðinni ítrekað verið hafnað af Vestfirðingum. Fyrir liggur að Alþingi verður að taka fyrir framangreinda tillögu innanríkisráðherra og skorar

bæjarstjórn Vesturbyggðar á alþingismenn að hafna þessari lausn í vegamálum. D-leiðin er fjallvegur um tvo torfæra hálsa og veglagning á nýrri leið mun valda óbætanlegum skaða á náttúru Hjallaháls og Ódrjúgsháls með miklum skeringum í kjarrivöxnum hlíðum.

Íbúar á Vestfjörðum hafa lagt áherslu á láglendisleið og þar með styttingu vegalengda og ferðatíma sem aftur lækka ferðakostnað og flutningskostnað sem bæta munu lífsgæði íbúa og starfsskilyrði fyrirtækja á svæðinu. En ekki síður minnka útblástur kolefna í andrúmsloftið.

Það er því ófrávíkjanleg krafa að ef D-leið verður tillaga innanríkisráðherra verði framkvæmdir á göngum undir Hjallaháls settar strax í forgang. Að öðrum kosti mun tillaga ráðherra leiða til þess að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum búa áfram við skerta samkeppnishæfni samfélagsins og fólksfækkun sem ekki sér fyrir endann á.

Minnt er á að Vegagerðin, samgönguráðuneyti, umhverfisráðuneyti og Alþingi Íslendinga höfðu áður samþykkt hina svokölluðu B-leið sem besta kost í öllu tilliti. Það vekur því mikla furðu að fallið sé frá þeim ákvörðunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert