Ekkert samkomulag um þinglok

Starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir að haustþingi ljúki á fimmtudag.
Starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir að haustþingi ljúki á fimmtudag. mbl.is/Heiðar

Þreifingar á milli þingflokksformanna stjórnar og stjórnarandstöðu um möguleika á samkomulagi um lok haustþings hafa engan árangur borið, enn sem komið er. Brýn mál bíða á meðan maraþonumræður eru um frumvarp forsætisráðherra til laga um Stjórnarráð Íslands.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks framsóknarmanna, segir að samkomulag strandi á því að forsætisráðherra haldi fast við að koma stjórnarráðsfrumvarpinu í gegn, þrátt fyrir mikla andstöðu í þinginu. Á meðan komist ekki önnur brýnni mál að.

„Það er sérkennilegt að láta þetta mál sem er algert aukaatriði ganga fyrir afgreiðslu brýnna mála eins og heimild til handa Íbúðarlánasjóði að veita heimilunum í landinu óverðtryggð lán, frumvarp um gjaldeyrishöfin og sveitarstjórnarlög, svo nokkuð sé nefnt,“ segir Gunnar Bragi.

Starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir að þessu haustþingi, sem er framhald af þingi sl. vetrar, ljúki á fimmtudag. Hægt er að funda áfram en þó að hámarki til mánaðamóta því nýtt þing verður sett 1. október. Stjórnarandstaðan telur sig geta rætt stjórnarráðsmálið þann tíma, ef á þurfi að halda.

Gunnar Bragi segir að stjórnarandstaðan sé ósátt við ákveðin atriði í þessu frumvarpi og muni ekki hleypa því í gegn á þessu þingi. Hann telur skynsamlegast að málið verði tekið af dagskrá og endurflutt á nýju þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka