Fjögur bifhjól af fimm í ólagi

Skoðunarmaður mælir hljóð frá bifhjóli sem lögreglumenn komu með til …
Skoðunarmaður mælir hljóð frá bifhjóli sem lögreglumenn komu með til skoðunar. mbl.is/Júlíus

Fjórir af fimm ökumönnum bifhjóla sem tekin voru til athugunar í skyndiskoðun síðdegis í dag voru ekki með hlutina í lagi. Varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar telur að bifhjólamenn þurfi almennt að laga skráningarmerki og pústkerfi hjóla sinna.

Umferðarstofa, lögregla höfuðborgarsvæðisins og skoðunarstöðvar voru með skyndiskoðun á bifhjólum á milli klukkan 17 og 19 í dag. Lögreglan boðaði fimm ökumenn sem voru á ferð um Hringbraut og nágrenni í skoðun á bifreiðastæði við BSÍ.

Tilgangurinn með átakinu er að auka umferðaröryggi og kanna búnað bifhjóla í umferðinni, samkvæmt upplýsingum Umferðarstofu.

Lögreglan stöðvaði fimm bifhjól á þessum tíma. Eitt reyndist í fullkomnu lagi og hélt för sinni áfram en fjögur voru tekin til nánari skoðunar.

Ólafur Knútsson, varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að tvö hjólanna hafi verið með ófullnægjandi skráningarmerki, of mikill hávaði hafi verið frá þremur og eitt hjólanna hafi hvorki verið með spegla né stefnuljós.

Hann segir að þessi skyndiskoðun staðfesti það álit að búnaði bifhjóla sé verulega áfátt, sérstaklega þurfi menn að huga að skráningarmerkjum og pústkerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert