„Allir forsætisráðherrar hafa ætíð verið velkomnir til Bessastaða,“ segir í svari forsetaembættisins við spurningu Morgunblaðsins um hvort forsætisráðherra hafi óskað eftir fundi með forseta Íslands vegna ummæla hans um framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði fyrir síðustu helgi að hún myndi krefja forsetann skýringa á orðum sínum, en hún segir hann hafa vegið ómaklega að ríkisstjórninni þegar hann sagði hana hafa „beygt sig fyrir ofbeldi Evrópuþjóða“ með því að fallast á kröfur Breta og Hollendinga.
Morgunblaðið spurði einnig hvort Ólafur Ragnar hefði tekið afstöðu til nýlegra skoðanakannana sem sýna að meirihluti svarenda er andvígur því að hann bjóði sig fram aftur. Í svari forsetaembættisins segir að forseti tjái sig ekki um skoðanakannanir sem honum tengist og að hann hafi ekki tekið ákvörðun um hvort hann bjóði sig fram til endurkjörs.