Forsetadeilan: tímaás

Bessastaðir og Hallgrímskirkja
Bessastaðir og Hallgrímskirkja Ómar Óskarsson

Fátítt er að forseti Íslands skiptist á orðum við sitjandi ríkisstjórn í gegnum fjölmiðla. Það hefur nú gerst ítrekað og má segja að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi hafið fimmtu lotuna í orðahnippingunum í viðtali við Rás 2 í morgun.

Fyrsta lotan, eða önnur, eftir því hvernig á málið er litið, hófst með viðtali RÚV við forsetann sunnudaginn 4. september. Gagnrýndi forsetinn þar framgöngu ríkisstjórnarinnar í Icesave-deilunni harðlega. En eins og forsetinn lýsti í samtali við Bylgjuna í gær taldi hann sig þá vera að bregðast við ummælum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra um deiluna.

Brást Steingrímur við ummælunum með þingræðu daginn eftir þar sem hann lýsti því yfir að hann myndi ekki leggja það á þjóð og þing að munnhöggvast við forsetann. Brá þá svo við að Svavar Gestsson, samningamaður Íslands í Icesave-deilunni til að byrja með, gagnrýndi forsetann harðlega fyrir ummælin í grein í Fréttablaðinu nokkrum dögum síðar.

„Ómaklega vegið“ að ríkisstjórninni

Þegar ummæli forsetans voru borin undir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í kvöldfréttum RÚV síðasta föstudag kvaðst hún, ef rétt væru eftir höfð, myndu ræða þau á fundi með Ólafi Ragnari við tækifæri. Forsetinn hefði vegið ómaklega að ríkisstjórninni.

Tjáði forsætisráðherra sig aftur um málið á þingi í gær er hún kvaðst ekki hafa ákveðið tímasetningu fundarins með forsetanum. Er hægt að nálgast andsvar Jóhönnu hér en það var andsvar við fyrirspurn Ólafar Nordal, varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Svaraði forsetinn fundarboðinu svo í samtali við Morgunblaðið í dag að „forsætisráðherrar hefðu ætíð verið velkomnir til Bessastaða“.

„Stórskotaliðsárásir“ forsetans á ríkisstjórnina

Síðar í gær dró svo enn til tíðinda í skeytasendingum forsetans og stjórnvalda þegar Ólafur Ragnar ræddi ummæli sín í viðtali við Bylgjuna. Kvaðst forsetinn þá sem fyrr segir aðeins hafa verið að bregðast við ummælum Steingríms í viðtalinu við RÚV 4. september.

Forsetanum var svarað þegar í morgun þegar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði forsetann hafa gert „stórskotaliðsárás“ á ríkisstjórnina með ummælum sínum. Lét ráðherrann þessi orð falla í samtali við morgunútvarp Rásar 2.

Er viðbragða forsetans nú beðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert