Föst yfirvinna til að halda í lækna

Samningar hafa tekist við lækna eftir langt samningaþóf.
Samningar hafa tekist við lækna eftir langt samningaþóf. mbl.is/Ásdís

Formaður samninganefndar lækna telur að kjarabætur í nýjum samningi við ríkið dugi ekki til að lokka unga sérfræðimenntaða lækna til landsins, eins og þörf sé á. Hins vegar geti þær hugsanlega dregið úr uppsögnum þeirra lækna sem starfað hafa hér um nokkurt árabil.

Samninganefndir Læknafélags Íslands og ríkisins undirrituðu nýjan kjarasamning hjá Ríkissáttasemjara í dag. Samningurinn nær til sjúkrahúslækna, heilsugæslulækna og unglækna. Sérfræðilæknar sem eru með eigin lækningastofur og skurðlæknar semja sér.

Sveinn Kjartansson, formaður samninganefndar lækna, segir að eftir sé að kynna samninginn fyrir félagsmönnum. Hann segir þó að grunnkaupshækkanir séu þær sömu og samið hefur verið um á vinnumarkaðnum. Í nokkrum sérmálum hafi aðeins verið komið til móts við lækna og segir Sveinn að mesta kjarabótin felist í ákvæði um fasta yfirvinnu. Hún sé þó misjöfn milli einstakra hópa lækna og breytileg eftir starfshlutfalli.

Fasta yfirvinnan er rökstudd með auknu álagi og vinnutíma lækna vegna fækkunar lækna í landinu. „Nei, það mun ekki gera það,“ segir Sveinn þegar hann er spurður að því hvort hann telji að kjarasamningurinn muni stöðva uppsagnir lækna og að þeir leiti eftir vinnu erlendis. „Þetta mun ekki breyta því að ungir læknar hraði sér út í sérnám og borin von að kjörin muni lokka unga öfluga sérfræðilækna heim, eins og við þurfum á að halda. Þetta gæti hugsanlega orðið til þess að sá hópur lækna sem starfað hefur á Íslandi dragi við sig að segja upp og fara alfarið til vinnu erlendis. Það er kannski helsti ávinningurinn,“ segir Sveinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert