Kostnaður við Landeyjahöfn er orðinn tæplega 3,5 milljarðar króna. Stofnkostnaður til ársins 2014 var áætlaður 3,4 milljarðar. Kom þetta fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur á Alþingi.
Fram kemur í svarinu að stofnkostnaðurinn var áætlaður 3400 milljónir til loka árs 2014 og er þá miðað við verðlag hvers árs. Áætlunin skiptist þannig að höfnin átti að kosta 2730 milljónir, hús og lóð 250 milljónir, stofndýpkun 190 milljónir og landgræðsla 230 milljónir. Áætlaður kostnaður á árunum 2012 til 2014 er aðallega vegna landgræðslu.
Áfallinn heildarkostnaður til 1. ágúst sl. var 3260 milljónir kr. Til viðbótar kemur kostnaður við viðhaldsdýpkun hafnarinnar sem orðinn var 234 milljónir kr. frá síðasta hausti og fram til júlíloka.
Í svari ráðherra kemur fram að kostnaður við að gera varnargarð við ósa Markarfljóts var 28 milljónir kr. Verkið var unnið í janúar og febrúar.
Einnig kemur fram að verið er að kanna kosti og galla þess að nota sjálfvirkan dælubúnað fyrir Landeyjahöfn og meta stofn- og rekstrarkostnað.