„Þetta er alveg gríðarlegt magn og gengur í bylgjum, maður trúir því ekki nema að sjá það. Þetta er svo fjarri öllu að menn sjá þetta ekki. Þeir sjá bara afleiðingarnar niðri við strönd,“ segir Jón G. Sigurðsson, flugmaður hjá Atlantsflugi, um myndir sem hann tók af öskustormi við Grímsvötn í morgun. Þurrt og hvasst er á svæðinu og hefur mikið öskufok verið þar síðustu daga.
Myndirnar voru teknar í ferð í Grímsvötn í morgun klukkan 10:50 en þá var vindur í Grímsvötnum í 7.000 feta hæð 60 hnútar eða 30 metrar á sekúndu. Sést þar glögglega hvernig öskustormurinn færist í suðvestur.
„Þetta er það mesta sem ég hef séð í flugi. Þetta líktist meira skýjafari en nokkru öðru. Það var mjög stífur vindur uppi í Grímsvötnum og nóg fóður. Það eru svo miklir staflar af ösku uppi á fjalli að svæðið suður af Grímsvötnum er bara eins og Skeiðarársandur,“ segir Jón.
Segir hann storminn afmarkast af svæðinu á milli Skeiðarárjökuls og Síðujökuls. Spáð er rigningu á fimmtudag eða jafnvel síðdegis á morgun. Ætti þá að draga úr öskufokinu.