Sakaðir um að misnota þingsköp

Stjórnarandstæðingar saka stjórnarþingmenn um að misnota möguleika þingskapa til að stytta umræður í þinginu. Einnig hafa svipbrigði forseta þingsins komið til umræðu um fundarstjórn forseta.

Þingmenn hafa í dag rætt um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og fjórtán þingmenn eru enn á mælendaskrá. Hámarksræðutími einstakra þingmanna er tvöfaldur, frá því sem venjulegt er. Þá er talsvert um andsvör og svör við andsvörum. Þá hefur einnig borið á því að stjórnarþingmenn hafa óskað eftir andsvörum við ræður stjórnarandstæðinga en fallið svo frá orðinu. Takmarkaður tími er til andsvara. Þegar þingmaður fellur frá orðinu seint gefst ekki öðrum kostur á að nýta tímann.

Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, vakti athygli á þessu í umræðu um fundarstjórn forseta síðdegis. Hann sagði að svo virtist sem stjórnarliðar væru farnir að gera sér það að leik að biðja um andsvör og falla svo frá þeim. Þeir sem vildu veita andsvör ættu að fá þann tíma sem til þess er ætlaður. Vildi hann að forseti bæði þingmennina að láta af þessari iðju.

Nokkrir þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir þessi orð þingflokksformanns Framsóknarflokksins.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði enga skyldu fyrir þingmenn að fara tvisvar í andsvar. Stundum bærust svör við spurningum sem vaknað hefðu í ræðu viðkomandi þingmanns og þá væri hægt að falla frá andsvari í heilu lagi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði mikilvægt að þingmenn virtu málfrelsi hver annars, þegar ræðutími væri takmarkaður. Lagði hún til að þegar spurningu hefði verið svarað í ræðu þingmanns, félli sá frá orðinu sem ætlað hefði að gera andsvar og gæfi öðrum þingmanni þá tækifæri til að spyrja og eiga orðastað við ræðumanninn.

Yfirlætisleg svipbrigði

Gunnar Bragi óskaði jafnframt eftir því að þingforsetar á hverjum tíma sýndu þingmönnum í ræðustóli þá kurteisi að vera ekki með yfirlætisleg svipbrigði á bak við þá þótt þeir væru ekki sammála ræðumanni. Þetta sæist allt á sjónvarpsvélunum.

Síðar í umræðunni kom fram hjá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, að þingmönnum hefði verið bent á að forseti hefði geiflað sig með þvílíkum vandlætingarsvip við umræðuna fyrr um daginn, að eftir hafi verið tekið um allt land. Ekki kom fram hver átti í hlut.

Stjórnarþingmenn kváðust ekki trúa sínum eigin eyrum, að þingmenn væru að kvarta undan svipbrigðum undir umræðum í þingsal. Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, óskaði eftir að fá sýnishorn af þeim svipbrigðum sem þingmaðurinn (Gunnar Bragi Sveinsson) vildi ekki sjá í þingsalnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert