Össur: Andstæðingar ESB hræddir

Össur Skarphéðinsson í Brussel.
Össur Skarphéðinsson í Brussel. Reuters

Það hefur verið samstillt átak forystumanna stjórnarandstöðunnar að  Evrópusambandsumsóknin verði dregin til baka. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsti þessu yfir í viðtali við morgunútvarp Rásar 2 í morgun. Össur segir andstæðinga ESB-aðildar hrædda við að þjóðin fái að kjósa um aðild.

„Mér er hulið hvers vegna andstæðingar Evrópusambandsaðildar vilja ekki af þjóðin fái að kjósa,“ sagði Össur og leiddi líkur að því að sá ótti ætti rætur í þeirri staðreynd að samningaviðræðurnar gengju betur en talið var.

Tilefni viðtalsins var skoðanakönnun Fréttablaðsins um helgina sem bendir til að ríflega 60% kjósenda vilji að Evrópusambandsumsóknin verði til lykta leidd með kosningu en ekki dregin til baka eins og farið er fram á vefnum skynsemi.is.

Taldi Össur andstæðinga ESB-umsóknar „mjög hrædda“ við að þjóðin fengi að kjósa um aðild. Samningar Íslands við sambandið í viðkvæmum málaflokkum gengju enda vonum framar. Íslendingar fengju mikið hrós fyrir tæknilega vinnu samninganefndarinnar.

Þá vék Össur að skuldakreppunni á evrusvæðinu með þeim orðum að evran myndi „ekki falla til jarðar“. Icesave-deiluna bar einnig á góma og sagði Össur Hollendinga harðari en Breta í kröfum sínum. Svo virtist sem Bretar væru búnir að jafna sig á deilunni.

Stefnufesta sjávarútvegsráðherra

Spurt var um ágreining ríkisstjórnarflokkanna í Evrópumálum.

„Svo skrítið sem það kann að hljóma ... er engin óvinátta á milli mín og Jóns Bjarnasonar,“ sagði Össur og sagði sjávarútvegsráðherra hafa fylgt sinni skoðun í ESB-málinu frá upphafi. Öðru máli gegndi um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, sem hefði skipt sjö til átta sinnum um skoðun í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka