Tveir þingmenn Framsóknarflokks, einn þingmaður VG og einn þingmaður Hreyfingarinnar leggja til að í frumvarpi um stjórnarráð Íslands verði ákvæði um að tillaga um fjölda og heiti ráðuneyta verði lögð fram á Alþingi í formi þingsályktunartillögu áður en forsetaúrskurður um ráðuneytin verður gefinn út í hvert sinn.
Samkvæmt tillögum meirihluta allsherjarnefndar Alþingis skal ákveða fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði samkvæmt tillögu forsætisráðherra. Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt þetta og segja, að í tillögunni felist valdaframsal frá Alþingi til framkvæmdarvalds.
Eygló Harðardóttir og Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, Árni Þór Sigurðsson, VG, og Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, leggja breytingartillöguna fram. Í greinargerð segir, að með breytingunni fái þingheimur tækifæri til að fjalla um það hvernig ríkisstjórnin sem situr í skjóli Alþingis verði skipuð, málefnasvið einstakra ráðuneyta og fjölda. Sé það í samræmi við þingræðisregluna þar sem leitað sé eftir stuðningi meirihluta þingsins fyrir þeirri skipan sem forsætisráðherra hyggist leggja til varðandi fjölda ráðuneyta, heiti þeirra og málefnasvið.
Annarri umræðu um frumvarpið var frestað á Alþingi í kvöld en þá voru enn margir á mælendaskrá.