Skotvís, félag skotveiðimanna, leggur til að veiðar á rjúpu verði með óbreyttu sniði áfram enda bendi ekkert til þess að rekja megi núverandi ástand rjúpnastofnsins til veiða.
Náttúrufræðistofnun Íslands sagði í gær að þrír kostir væru fyrir hendi í ljósi hnignunar rjúpnastofnsins, þar á meðal að hætta rjúpnaveiðum.
Skotvís segir, að það nái ekki nokkurri átt að gera veiðimenn alfarið ábyrga fyrir minnkun veiðistofns um 500.000 fugla á milli ára. Árið 2010 var áætlaður veiðistofn 850.000 rjúpur en er nú áætlaður 350.000 rjúpur. Alls hafi verið veiddar um 75.000 rjúpur haustið 2010.
Skotvís leggur til að áfram verði haldið með hvatningarátak til veiðimanna um að draga úr veiðum og að menn veiði hóflega og aðeins fyrir sjálfa sig. Þá verði samstarfið Skotvís og veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar aukið og markvisst verði unnið að því að draga úr veiðum næsta tímabil. Það hafi sýnt sig að langflestir veiðimenn fari eftir tilmælum sem til þeirra er beint.