Bragi Halldórsson er efstur á Norðurlandamóti öldunga í skák ásamt finnska stórmeistaranum Yrjo Rantanen, Dönunum Jorn Sloth og Bent Sörensen, og Norðmanninum Per Ofstad. Bar Bragi sigurorð af Jóhanni Erni Sigurjónssyni í fimmtu umferð mótsins sem fram fór í dag.
Á vef Skáksambands Íslands segir að Friðrik Ólafsson hafi fengið mjög vænlegt tafl gegn Rantanen en yfirsést skemmtileg biskupsfórn sem hefði gefið honum yfirburðatafl. Friðrik og Gunnar Gunnarsson eru í 6.-10. sæti með 3½ vinning.
Sjötta umferð fer fram á morgun og hefst klukkan 14:00. Þá mætast m.a.: Rantanen - Sörensen, Ofstad - Sloth, Bragi - Malmdin, Gunnar - Friðrik og Westerinen - Jón Þ. Þór.