„Ég held að það sé alveg ljóst að það er ekki hægt að bjóða lengur upp á gjaldmiðil sem býður upp á kollsteypur á fimm til tíu ára fresti fyrir fjölskyldur, heimilin og fyrirtækin í landinu,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um gjaldeyrismál á Alþingi í morgun.
Þá áréttaði Þorgerður Katrín að fara þyrfti yfir hvaða peningastefna hentaði landinu best til lengri tíma litið. Allir flokkar þyrftu að koma að þeirri vinnu.
„Þess vegna held ég að við eigum að skipa hóp með fulltrúum allra flokka sem móti peningastefnu til lengri tíma. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að við verðum að fara að setjast niður [og ræða] hvert við stefnum, ekki bara til næstu tveggja ára heldur til lengri tíma litið.“
Þá lýsti Þorgerður Katrín yfir þeirri skoðun sinni að fyrst þyrfti að ná tökum á ríkisfjármálum áður en hugað væri að peningastefnu og valkosti þar um til framtíðar. Ísland uppfyllti til dæmis ekki Maastricht-skilyrðin um upptöku evru.