Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að enginn vilji hefði komið fram hjá stjórnarandstöðunni um að semja um þinghaldið nú á haustþinginu og þau tvö stóru ágreiningsmál, sem nú eru þar til umræðu.
Verið var að greiða atkvæði um tillögu forseta þingsins um að þingfundur í dag gæti staðið fram eftir kvöldi eins lengi og þörf væri á.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu, að lítil ástæða væri til að halda kvöldfund ef ekki væri ljóst hver verkáætlun þingsins væri og sögðu að næturbrölt undanfarinna daga á Alþingi væri ekki til sóma.
Jóhanna sagði, að haldnir hefðu verið nokkrir fundir með formönnum flokka til að reyna að ná samkomulagi um lok þingsins. Allir vissu, að tvö ágreiningsmál væru aðallega á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Stjórnarliðar hefðu lagt fram tillögur um hvernig hægt væri að koma til móts við stjórnarandstöðuna í þessum tveimur málum.
„Það var vel boðið (...) í báðum þessum málum en það kom enginn vilji fram af hálfu stjórnarandstöðunnar að semja um þessi tvö mál og á meðan svo er ekki er ekki hægt að ljúka þessu þinghaldi," sagði Jóhanna.
Málin tvö eru frumvarp um stjórnarráðið og frumvarp um framlengingu gjaldeyrishaftanna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu að ljúka tugum mála á þinginu nú strax, ef forsætisráðherra væri ekki að nota þau mál til að þvinga menn til að ræða um sitt helsta áhugamál, breytingar á stjórnarráðslögunum, sem færi forsætisráðherra meiri völd.
Jóhanna sagði ósvífni, að halda því fram að hún hefði ekki sýnt vilja til að ná samkomulagi um þingstörfin. Sagðist hún hafa sett fram hugmyndir um lausn málanna.
Tillaga um kvöldfund var síðan samþykkt.