ESB borgar með fiskinum

Evrópskir sjómenn um borð í togara.
Evrópskir sjómenn um borð í togara. Reuters

Árið 2009 varði Evrópusambandið 3,3 milljörðum evra í niðurgreiðslur til sjávarútvegs í aðildarríkjunum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu samtakanna Oceana en heildartalan er þrefalt hærri en sú sem framkvæmdastjórn sambandsins heldur iðulega fram. Eru niðurgreiðslur hærri en verðmæti landaðs afla í 13 aðildarríkjanna.

Oceana tekur þannig einnig með í reikninginn niðurgreiðslur einstakra aðildarríkja en ekki aðeins greiðslur frá framkvæmdastjórninni í Brussel, líkt og framkvæmdastjórnin gerir sjálf. Talan, 3,3 milljarðar evra, jafngildir um 529 milljörðum króna á núverandi gengi krónu.

Þrefalt hærri en verðmæti landaðs afla

Niðurgreiðslur til finnsks sjávarútvegs eru þrefalt hærri en verðmæti landaðs afla og 1,5 sinnum hærri í Þýskalandi. Niðurgreiðslurnar eru mestar á Spáni, í Frakklandi, Danmörku, Bretlandi og Ítalíu og nema þar samtals 1,9 milljörðum evra.

Oceana lýsir yfir miklum áhyggjum af niðurgreiðslunum enda örvi þær veiðar á hafsvæðum aðildarríkjanna á sama tíma og ofveiði sé vandamál í sambandinu.

Nálgast má vef samtakanna hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka