Hasar í Heimakletti

Á myndinni má sjá þegar verið er að láta kindur …
Á myndinni má sjá þegar verið er að láta kindur síga niður úr klettinum. Ljósmynd/Jóhann Kristjánsson

Veðrið lék við Eyjamenn þegar fé var smalað af Heimakletti síðustu helgi. Á milli 30 og 40 kindur voru á klettinum, að sögn Jóhanns Kristjánssonar áhugaljósmyndara. Átta manna hópur vaskra manna tók þátt í smöluninni.

Að sögn Jóhanns er mikil list að smala fé á klettinum.

„Þetta er alls staðar hallandi undirlag. Það er stutt í kletta og mikið af hættum. Svo er mikið af lundaholum á klettinum. Í sumar voru flestar holurnar hins vegar tómar enda misfórst lundavarpið í ár.

Smölunin tók um fjóra klukkutíma en hafist var handa um hádegisbilið. Þetta var í fyrsta sinn sem mér var boðið að fylgjast með smöluninni. Það var mjög gaman að fylgjast með mönnunum að verki. Kindurnar eru ótrúlega fótvissar í þessu undirlagi.

Það er nógur hagi á klettinum og menn gæta sín á að hafa ekki of margar kindur. Ef það gerist er meiri hætta á að kindurnar gerist enn djarfari við að ná í grasið. Þá er hættara við að þær falli fram af klettunum,“ segir Jóhann.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert