Icelandair boðar aukin umsvif

Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair.
Birkir Hólm Guðnason framkvæmdastjóri Icelandair.

Icelandair boðar aukin umsvif á næsta ári og segir að flugáætlun félagsins fyrir það ár verði 13% umsvifameiri en á þessu ári. Flugfélagið mun m.a. hefja flug til ýmissa borga í Evrópu og Bandaríkjunum.

Félagið segir, að gert sé ráð fyrir að farþegar félagsins verði um 2 milljónir á árinu 2012, en samkvæmt áætlunum verða þeir tæplega 1,8 milljónir á árinu 2011.  Alls verða 16 Boeing 757  flugvélar nýttar til áætlunarflugsins næsta sumar, tveimur fleiri en á þessu ári.   

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir í tilkynningu, að stjórnendur félagsins sjái fyrir sér að vetraráætlun 2012-2013 verði meiri að umfangi en sumaráætlun var fyrir tveimur árum.

Vegna efnahagskreppunnar var dregið úr starfsemi Icelandair árið 2008, en á tímabilinu 2009 til 2012 hefur vöxturinn í áætlunarflugi Icelandair verið um 52% og farþegum fjölgað úr 1,3 milljónum í tvær milljónir á næsta ári, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair. Í ár er aukningin um 17% frá síðasta ári og vöxturinn er áætlaður um 13% á því næsta. 

Icelandair mun fljúga fjórum sinnum í viku til Denver í Colorado allt árið um kring. Þá verður fjölgað ferðum til Washington og Seattle í Bandaríkjunum, til allra höfuðborga Norðurlandanna og Þrándheims, Stavanger og Bergen í Noregi, til Billund í Danmörku, til Munchen, Amsterdam, Brussel og Parísar á meginlandi Evrópu og til Manchester og Glasgow á Bretlandseyjum. Alls verða áfangastaðirnir 31 á næsta ári.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert