Stöðugildum starfsmanna ríkisins fækkaði frá 2008 til 2010 um 888 eða 4,9%. Þar af fækkaði starfsmönnum í heilbrigðiskerfinu um 508 eða um 7%. Ekkert ráðuneyti hefur þurft að taka á sig jafn mikla fækkun og heilbrigðisráðuneytið. Störfum fækkaði á Landspítala um 308 eða 7,9%.
Fækkun starfa á spítalanum hefur haldið áfram á þessu ári og er orðin meiri en 9% frá hruni.
Fækkun starfa í menntakerfinu er mun minni en í heilbrigðiskerfinu. Fækkun starfsmanna í framhaldsskólunum er 3,4% og 3,6% í háskólunum. Fækkun starfa í æðstu yfirstjórn landsins er 2,6%. Starfsfólki dómstólanna hefur heldur fjölgað, en veruleg fækkun hefur orðið hjá sýslumannsembættunum.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að starfsfólki hefur fjölgað hjá stofnunum sem álag hefur verið hjá sem rekja má beint og óbeint til hrunsins.