„Það bólar ekki á Nýja-Íslandi. Það glittir kannski rétt í nefið á því,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, og bætir því við að ekki þurfi að koma á óvart að virðingin fyrir Alþingi fari þverrandi. Málþóf, skætingur og hagsmunagæsla einkenni störf þingsins tæpum þremur árum eftir hrun.
Í síðustu viku lýsti Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, því yfir í ræðustól Alþingis að ekki ætti að koma á óvart að þingmenn væru „núll og nix“ í augum almennings, vegna framgöngu þeirra í þinginu.
Orðrétt sagði Valgerður: „Það er ekki hægt að tala mannamál í þessum sal vegna þess að mönnum liggur svo mikið á að snúa út úr hverju einasta orði sem hér er sagt. Og það er þess vegna ekki furða þó þjóðinni finnist við bara núll og nix og næstum til óþarfa.“
Síðar sama dag var Þráinn Bertelsson þingmaður rekinn úr ræðustól vegna ummæla um starfandi menntamálaráðherra.
Svo bar það við í morgun að Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, uppnefndi Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, „forsetaræfilinn“ í þingræðu.
En hvorki Björn Valur né Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, tóku símann þegar mbl.is sló á þráðinn til þeirra fyrir stundu.
Aðspurður um stöðu Alþingis og almenningsálitið í ljósi þessara uppákoma svaraði Þór því til að ástandið hefði „ef eitthvað er versnað síðan efnahagshrunið varð“.
Þingstörf einkennist af hagsmunagæslu og tilgangslausu málþófi.
„Nýja-Ísland lætur bíða eftir sér, að minnsta kosti á Alþingi Íslendinga,“ sagði Þór Saari í hádeginu.