Öllu starfsfólki Heilsustofnunarinnar í Hveragerði verður sagt upp um mánaðamótin, náist ekki samningar við velferðarráðuneytið. Þjónustusamningur við ríkið rennur út um áramótin og engar viðræður eru í gangi um áframhaldandi samning.
„Við fáum ekki viðtal, við fáum ekki fundi. Við höfum leitað eftir því síðan um áramótin síðustu þegar samningnum var sagt upp,“ segir Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heilsustofnunarinnar.
Upphaflegur samningur ríkisins við stofnunina hljóðaði upp á 550 milljónir króna á ári, en greiðslurnar hafa verið skornar niður um hundrað milljónir frá hruni. Ólafur segir að hægt sé að reka stofnunina áfram fyrir óbreytt framlag.
Hann segir að 104 starfsmenn séu á launaskrá stofnunarinnar, af þeim fái 87 uppsagnarbréf þar sem hluti starfsfólksins er lausráðinn. Starfsfólkinu var tilkynnt um þetta í morgun.
„Þetta er fólk með margvíslega menntun, meðal annars læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, næringarfræðingar, almennt starfsfólk og nuddarar.“
„Við erum búin að þjónusta ríkið í 50 ár og ég geri ekki ráð fyrir að ríkið hlaupi allt í einu til og hætti að vinna með okkur. En við erum hissa á því hvað þeir eru seinir að svara. Við gætum klárað samningana á 2-3 vikum. En núna getum við ekki annað en sagt fólki upp, það er búið að setja okkur í þessa stöðu, sem okkur er meinilla við að vera í.“
Ólafur segir allt tal um að Heilsustofnunin sé ekki inni í heilbrigðiskerfinu rangt.
„Við höfum verið inni í heilbrigðiskerfinu í 50 ár, en við erum ekki í eigu ríkisins. Við höfum í gegnum tíðina veitt góða þjónustu fyrir gott verð og haldið fólki fyrir utan bráðastofnanir með endurhæfingu og forvörnum, þannig að við erum að spara kerfinu verulega peninga. Það væri viðurkennt í öllum siðuðum löndum, en það gilda kannski ekki sömu lög hér frekar en fyrri daginn.“
„Auðvitað vona ég að þetta leysist, en ég er dálítið hræddur um að við lendum í ansi erfiðri stöðu ef við þurfum virkilega að fara í þessar uppsagnir,“ segir Ólafur.