Úthlutunarsjóður Hjálpræðishersins er tómur vegna mikillar fjölgunar umsókna um mataraðstoð og verður engin frekari aðstoð veitt bágstöddum það sem eftir lifir árs.
Árlega stendur Herinn fyrir jólasöfnun og rennur féð fyrst og fremst til kaupa á inneignarkortum í Bónus. „Yfirleitt hefur sjóðurinn dugað í heilt ár,“ segir Rannvá Olsen, foringi í Hjálpræðishernum. „En það hefur orðið svo mikil fjölgun á umsóknum. Við höfum reynt að halda út og leitað allra leiða til að hjálpa fólki, en nú er komið að þessu og við þurfum því miður að vísa fólki annað. Við áttum alls ekki von á að þetta myndi fara svona.“
Hjálparstofnun kirkjunnar tók upp svokallað kortakerfi í vor, en í stað biðraða eftir matarpokum fær fólk nú kort sem það getur notað til kaupa á nauðsynjavöru. „Við höfum sem betur fer nóg fjármagn til að sinna þessari úthlutun,“ segir Bjarni Gíslason hjá Hjálparstofnun kirkjunnar. „Við fáum mikinn stuðning, fyrst og fremst frá almenningi.“