Í nefndaráliti sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd Alþingis um frumvarp til nýrra upplýsingalaga, er haft eftir formanni starfshóps, sem samdi frumvarpið, að með því sé raun verið að slá skjaldborg um opinbera starfsmenn og ríkisstjórn og tryggja vinnufrið í stjórnsýslunni.
Segir í nefndarálitinu að Trausti Fannar Valsson, lektor við Háskóla Íslands og formaður starfshópsins, hafi lýst þessu yfir á fundi nefndarinnar.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, þeir Birgir Ármannsson og Sigurður Kári Kristjánsson, segja að svo afdráttarlaus yfirlýsing formanns þess starfshóps sem samdi frumvarpið, staðfesti þá skoðun þeirra, að með frumvarpinu sé verið að skerða upplýsingarétt borgara þessa lands en ekki auka hann.
Það brjóti gegn þeim grundvallarsjónarmiðum, sem búi að baki núgildandi upplýsingalögum um rétt almennings til að veita stjórnsýslunni aðhald og til þess að fá upplýsingar um mikilvæg mál sem hann varða. Segjast þingmennirnir leggjast eindregið gegn því að frumvarpið verði samþykkt.
Í umsögn meirihluta allsherjarnefndar, sem þingmenn stjórnarflokkanna og Hreyfingar skipa, segir hins vegar að frumvarpið byggist í megindráttum á gildandi upplýsingalögum en það markmið liggi að baki endurskoðun laganna að auka þurfi upplýsingarétt almennings, tryggja gagnsæi í stjórnsýslunni og við meðferð opinberra hagsmuna í þeim tilgangi m.a. að styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi og einnig þátttöku almennings í lýðræðisþjóðfélagi.