Svona eiga vinnubrögðin að vera

Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri ráðherrar á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri ráðherrar á Alþingi.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að breytingartillaga frá fjórum þingmönnum við frumvarp um Stjórnarráð Íslands sé til þess fallin að leysa þann hnút, sem kominn er í umræðuna um frumvarpið.

„Svona eiga vinnubrögðin að vera. Hér er sett fram tillaga til málamiðlunar og ég tek undir þessa tillögu," sagði Jóhanna.

Tillagan er um að sett verði ákvæði í lögin um að tillaga um fjölda og heiti ráðuneyta verði lögð fram á Alþingi í formi þingsályktunartillögu áður en forsetaúrskurður um ráðuneytin verður gefinn út í hvert sinn.

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, er fyrsti flutningsmaður breytingartillögunnar en aðrir flutningsmenn eru Siv Friðleifsdóttir, flokkssystir hennar, Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, og Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

Siv Friðleifsdóttir sagði á þingi í dag, að hún teldi frumvarpið vera gott að mörgu leyti og um væri að ræða framfaramál. Breytingartillagan væri lögð fram til að greiða fyrir því að frumvarpið verði afgreitt.

Jóhanna hrósaði Siv fyrir ræðuna og sagði hana hafa talað af einlægni fyrir sinni sannfæringu og stefnu síns flokks. Hefði ræða Sivjar lýst í hnotskurn þeim vanda, sem löggjafarsamkoman ætti við að glíma, að aldrei væri hægt að ræða málefnalega um mál og takast á með rökum og leita lausna heldur væru málin alltaf sett í uppnám.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert