Skálavörður í Fimmvörðuskála Útivistar gerir athugasemdir við að ekið sé með vísindamenn upp brekku fyrir neðan Fimmvörðuskála áleiðis að Eyjafjallajökli. Hægt sé að fara aðra leið og betri og komast þannig hjá því að spilla ásýnd vinsæls göngulands.
Síðast á mánudag var beltabíl Flugbjörgunarsveitarinnar á Hellu ekið með vísindamenn frá Baldvinsskála, sem margir þekkja betur sem Fúkka, upp brattan hrygginn og þaðan á Eyjafjallajökul. Sama leið hefur oft verið notuð til að fara með vísindamenn á jökulinn.
Almennur akstur upp á Skógaheiði er bannaður og aðeins einstaka ferðaþjónustufyrirtæki, vísindamenn, björgunarsveitir og slíkir mega fara þar um.
Sigurður Sigurðarson, skálavörður og þaulvanur ferðamaður, bendir á að brekkan sé að öðru leyti nánast ósnortin. Förin sjáist víða að, m.a. af gönguleiðinni um Fimmvörðuháls.
Sigurður segir að ekki sé um neinar stórkostlegar skemmdir að ræða og þær sé hugsanlega hægt að laga með því að raka yfir þær. Hættan sé sú að förin eftir beltabílinn verði til þess að fleiri fari sömu leið. Smám saman myndist þarna vegur. „Ef við fáum jeppa, beltabíla og hvaðeina trekk í trekk, þá er þetta ekki sniðugt. Þetta fer bara út í vitleysu.“