Óvenjumikið hefur borið á hraðakstri í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðustu vikur. Frá 10. ágúst sl. eru hátt í 800 hraðakstursbrot skráð og eru mælingar á hraðamyndavélum þar undanskildar.
Bifhjól hafa verið tekin á allt að 200 km hraða og kraftmiklir bílar á 155 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km. Hafa ökumenn verið á öllum aldri og af báðum kynjum en ungir karlmenn þó mest áberandi.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að bæði lögreglan og Umferðarstofa hafa af þessu áhyggjur en binda vonir við að um tímabundið ástand sé að ræða. Bent er á að hraðakstur komi í bylgjum og yfir lengri tíma litið hafi þessum brotum fækkað, alvarlegum umferðarslysum hafi fækkað og ökuhraði almennt farið lækkandi.