Deilt um hesta í skilnaðarmáli

..
..

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt að níu hestar, sem fyrrverandi sambýlisfólk deildi um, skuli vera sameign þeirra en nú standa yfir fjármálaleg skipti vegna slita á óvígðri sambúð fólksins.

Fram kemur í dómnum, að hrossin voru skráð eign mannsins. Konan bar hins vegar, að hrossin hefðu öll verið keypt á meðan hún og maðurinn bjuggu saman. Hún teldi sig hafa, með fjárframlögum sínum, eignast hlutdeild í verðmæti hrossanna enda hafi verðgildi þeirra aukist vegna tamningar og þjálfunar þeirra, sem hún hefði greitt fyrir, auk fóðrunar þeirra. 

Maðurinn bar fyrir rétti, að hann ætti aðeins einn hest eftir en hann hefði neyðst til að selja hina hestana upp í skuld við tvo aðila. Þá taldi hann konuna ekki hafa lögvarða kröfu til eignarréttar á hestunum.

Dómari komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að þegar sambúð konunnar og mannsins lauk hafi þau átt hrossin að jöfnu.

Málamyndagerningar

Fram kom við réttarhaldið, að fimm af hestunum hefðu í október í fyrra verið skráðir á nafn fyrrverandi eiginkonu mannsins. Hún og maðurinn sögðu, að hestarnir hefðu verið greiðsla upp í skuld mannsins við konuna. Segir héraðsdómari að þessi framburður hafi ekki verið trúverðugur en fram kom, að hjónin fyrrverandi ætli að taka upp sambúð að nýju.

Þá kemur fram að þrír hestanna hafi verið skráðir á nafn aldavinar mannsins. „Að mati dómsins er hér um málamyndagerninga að ræða, til þess eins að koma hrossunum undan skiptum," segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert