Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í morgun haldið áfram harðri gagnrýni á frumvarpið. Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, rifjaði meðal annars upp gagnrýni Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, á breytingar á stjórnarráðinu í tíð fyrri ríkisstjórna þegar hann var í stjórnarandstöðu þar sem hann hafi talað fyrir því að slíkar breytingar væru gerðar í sátt og ekki í ágreiningi.
Birkir vitnaði einnig til ræðu sem Atli Gíslason, alþingismaður, flutti í nótt á Alþingi þar sem hann gagnrýndi harðlega foringjaræði í stjórnmálaflokkum og sagði það eiga við um framgöngu stjórnvalda í tengslum við frumvarpið til breytinga á stjórnarráðinu. Sagði Atli að frumvarpið gengi gegn skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar þingsins um viðbrögð við rannsóknarskýrslunni.
Birkir gagnrýndi þingmenn ríkisstjórnarflokkanna fyrir foringjahollustu og að ganga í takt við vilja Steingríms og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.
Þá spurði hann hvort Jóhanna teldi til eftirbreytni ýmis þau ummæli, sem þingmenn stjórnarflokkanna hefðu látið falla í umræðunni. Í morgun hefði utanríkisráðherra kallað nokkra þingmenn stjórnarandstöðunnar talibana. Í gær hefði því verið haldið fram að formaður þingflokks Framsóknarflokksins væri með geðklofa. Talað væri um forseta lýðveldisins með þeim hætti að hann væri ræfill. Og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, hefði efast um að þingmenn væru með meðalgreind.
„Þetta er ekki samboðið Alþingi Íslendinga að stjórnarþingmenn skuli tala með þeim hætti sem raun ber vitni," sagði Birkir.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu Jóhönnu harðlega fyrir að svara ekki spurningum stjórnarandstöðunnar vegna málsins.