Engar viðskiptaþvinganir gegn Íslandi

Hvalveiðiskipin bundin við bryggju í Reykjarvíkurhöfn
Hvalveiðiskipin bundin við bryggju í Reykjarvíkurhöfn Ómar Óskarsson

Barack Obama Bandaríkjaforseti ætlar ekki að grípa til viðskiptaþvingana vegna hvalveiða Íslendinga. Kemur þetta fram í skýrslu sem hann skilaði til fulltrúardeildar Bandaríkjaþings í dag. Verður þó áfram þrýst á Íslendinga  að hætta veiðunum.

„Aðgerðir Íslendinga ógna verndun dýra í útrýmingarhættu og grafa undan fjölhliða tilraunum til þess að tryggja verndun hvala um allan heim. Hvalveiðar Íslendinga í atvinnuskyni og viðskipti með hvalaafurðir draga úr gildi verndaráætlana,“ sagði forsetinn við þingmenn.

Sagðist hann ekki ætla að fara fram á það við fjármálaráðherra Bandaríkjanna að setja á viðskiptatakmarkanir á íslenskar vörur. Þess í stað beinir Obama því til embættismanna hvort rétt sé að ferðast til Íslands og að ræða hvalveiðimál við Íslendinga þegar þeir eru þar staddir.

Hafa umhverfisverndarsamtök farið fram á það að forsetinn beiti svokölluðu Pelly-ákvæði gegn Íslendingum. Pelly-ákvæðið er hluti af þarlendri löggjöf um friðun sjávardýra og geta Bandaríkin beitt viðskiptaþvingunum þrátt fyrir ákvæði GATT-samkomulagsins, ef Íslendingar þykja brjóta gegn ákvæðum annarra sáttmála sem ganga framar, eins og CITES-samningsins um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, en hann hefur verið lögfestur hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert