„Það er dýrt að ráða lögmann til að fara alla leið. Ég veit ekki hvort ég get það því þótt ég sé sannfærður um rétt minn er hinn möguleikinn alltaf fyrir hendi. Ég hef þó efni á því að segja frá því hvernig bankinn kemst upp með að gera mér þetta.“
Þetta segir Bogi Ragnarsson sem ekki hefur fengið endurreikning á láni í erlendum myntum sem hann tók hjá Glitni og greiddi upp viku áður en Íslandsbanki tók við skuldbindingum gamla bankans.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir, að Íslandsbanki vísar frá sér kröfu Boga um endurreikning og 8 milljóna króna endurgreiðslu vegna lánsins sem Bogi telur falla undir lögin um uppgjör gengistryggðra lána. Bankinn vísar í svarbréfi til þess að Íslandsbanki hafi tekið yfir tilteknar eignir og skuldbindingar Glitnis 15. október 2008 og því hafi ekki færst yfir kröfur vegna viðskipta sem gerð voru upp fyrir þann tíma.
Honum var bent á að gera skaðabótakröfu í þrotabú gamla bankans. Kröfulýsingarfrestur í búið var liðinn áður en gengistryggð lán voru dæmd ólögleg og Alþingi samþykkti lög um samræmt uppgjör þeirra. „Þótt einhverjar hjáleiðir fyndust í því mun þrotabúið aldrei geta greitt meira en 25% kröfunnar. Mér finnst því ekki koma til greina að fara þá leið,“ segir Bogi.
Hann telur sér vera gróflega mismunað þegar allir aðrir sem tapað hafi á sambærilegum lánum hafi fengið leiðréttingu.