„Í mínum huga á almenningur að geta kosið um allt sem hann lystir. Ef við erum nógu mörg sem óskum eftir því þá á krafan um milliliðalaust lýðræði að ganga eftir,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á ráðstefnu um lýðræði í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Ögmundur kom forsetanum til varnar.
Innanríkisráðuneytið bauð til ráðstefnu um lýðræði í samvinnu við Reykjavíkurborg og samtökin Initiative and Referendum Institute Europe, líkt og sagt var frá á fréttavef Morgunblaðsins í gær.
Fimmtungur kjósenda getur krafist atkvæðagreiðslu
Innanríkisráðherra vék að lýðræðisþróun í sveitarstjórnarmálum.
„Það er gleðilegt að nú skuli slíkur réttur í fyrsta sinn í þann veginn að verða leiddur í lög á Íslandi,“ sagði Ögmundur og átti við beint lýðræði.
„Samkvæmt frumvarpi nýrra sveitarstjórnarlaga nægir að fimmtungur íbúa í sveitarfélagi krefjist almennrar atkvæðagreiðslu, þá skal hún fara fram. Lýðræðisfélagið Aldan hefur vakið athygli á því að ganga hefði mátt lengra í þessari lagasmíð og hef ég skilning á því sjónarmiði - en enginn neitar því þó að þarna er verið að stíga mjög mikilvægt skref í lýðræðisátt.“
Stjórnlagaráð og Kárahnjúkar
Ögmundur lýsir sig fylgjandi hugmyndu stjórnlagaráðs um þjóðaratkvæðagreiðslur.
„Sambærilegt ákvæði við það sem er að finna í nýjum sveitarstjórnarlögum þarf að komast inn í landslögin og inn í Stjórnarskrá lýðveldisins.“
Í niðurlagi greinarinnar spyr ráðherrann svo hvort ráðist hefði verið í byggingu Kárahnjúkavirkjunar ef kosið hefði verið um framkvæmdina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Hefði verið virkjað við Kárahnjúka, hefðu bankarnir verið einkavæddir og sjávarauðlindin sett í pant ef þurft hefði að eiga það við þjóðina beint? Og hvað með vatnið?“
Kemur forsetanum til varnar
Eftir umfjöllunina um stjórnlagaráð vék Ögmundur næst að þeirri ákvörðun forsetans að vísa Icesave-deilunni tvívegis í þjóðaratkvæðagreiðslu. Skal tekið fram að skáletranir eru Ögmundar.
„En jafnvel þótt það sé rétturinn til ákvarðanatöku en ekki reynslan af lýðræðinu sem færir okkur þessi lög, þá er engu að síður eðlilegt að spurt sé um reynsluna af beinu lýðræði. Í ársbyrjun 2010 fór fram nokkur umræða um lýðræðið í tengslum við þá ákvörðun forseta Íslands að verða við kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu.
Í þeirri umræðu var einhverju sinni vísað til þess að fræðimenn hefðu talað um að forseti lýðveldisins væri í Icesave málinu að "þvælast fyrir" ríkisstjórninni og orðrétt var haft eftir lagaprófessor og dómara að það væri "mjög óþægileg staða fyrir ríkisstjórn og þingmeirihluta hverju sinni að þurfa að eiga það yfir höfði sér að erfiðum málum, sem að þeim hefur tekist að koma í gegnum þingið, sé synjað með þessum hætti.“
Ögmundur víkur næst að afstöðu borgarastéttarinnar til þess að alþýðan fái að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslum og verður það ekki skilið öðruvísi en svo að ráðherrann hafi verið fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave, í ljósi þess sem að framan greinir.
Lýðræðið og réttlætið
Ögmundur nefndi svo dæmi um ólíka afstöðu manna til þjóðaratkvæðagreiðslna.
„Annar þáttakandi í umræðunni komst svo að orði: „Það er langt frá því að aukin þátttaka almennings í stjórnun landsins með þjóðaratkvæðagreiðslum sé samasammerki með réttlátara samfélagi. Dæmin tala sínu máli. Í Bandaríkjunum eru til ríki sem ganga afar langt í þessum efnum og almenningur fær að kjósa um flest mál. Þessi ríki eiga það sammerkt að vera skuldugusu ríki Bandaríkjanna, opinber þjónusta er engin og félagslegt óréttlæti mest. Þá virðast lög í anda rasisma eiga greiða leið í slíku fyrirkomulagi eins og nýlegt dæmi frá Sviss sýnir. Staðreyndin er nefnilega sú að lýðskrumarar með aðgang að peningum eiga mun auðveldara með að koma málum í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu heldur en faglega umræðu á þjóðþingi."
Enn einn þátttakandi í umræðunni brást við þessu að bragði: Hvers konar viðhorf eru það sem fram koma gagnvart þjóðinni, ef menn vilja taka frá henni réttinn til að bera ábyrgð á örlögum sínum? Mér finnst það til marks um síð-sovésk viðhorf ... að leyfa sér mannfyrirlitningu af þessu tagi.
Undir þetta síðasta tók ég í mínum skrifum á þessum tíma og benti á að forræðishyggjan í nútímastjórnmálum væri skyld málflutningi borgarastéttar 19. aldarinnar, sem vildi halda kosningarétti takmörkuðum gagnvart vaxandi verkalýðsstétt á sama hátt og aðall og konungssinnar höfðu áður meinað borgarastéttinni aðgang að löggjafarvaldi. Sýn borgarastéttar 19. aldarinnar á skaðsemi lýðræðisins hefði verið hagsmunatengd en sú hætta væri einmitt uppi á öllum tímum að menn létu stjórnast af þröngum hagsmunum,“ sagði Ögmundur í ræðunni sem má nálgast hér.