Lögðu fram tillögu að lausn

Þingflokksformenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks kynntu forystumönnum ríkisstjórnarflokkana tillögu að lausn á stjórnarráðsmálinu nú fyrir kvöldmat. Viðbrögð þeirra liggja þó ekki fyrir að sögn Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Enn sé allt í óvissu um framhald mála í þinginu.

Birgir segir vissulega einhverja viðleitni til þess að finna einhverjar lausnir í sambandi við þau mál sem helst hafa valdið deilum og nefnir þar gjaldeyrishaftamálið og stjórnarráðsmálið.

„Ágreiningurinn er enn til staðar og á meðan ekki er komin lausn halda umræðurnar áfram. Við höldum áfram að kalla eftir svörum í sambandi við ýmis atriði sem eru óljós hvað varðar framkvæmdina á stjórnarráðsfrumvarpinu. Fyrir kvöldmat ítrekuðum við fyrirspurnir sem margoft hafa komið fram til forsætisráðherra um það hvaða áform hún hefði um að nýta þær heimildir sem frumvarpið á að færa til hennar,“ segir Birgir.

Samkvæmt heimildum eru formenn stjórnarflokkanna að skoða tillögu stjórnarandstöðunnar og ætti niðurstaða hugsanlega að liggja fyrir á næstu klukkustundinni. Kvöldfundur fer fram á Alþingi í kvöld, annað kvöldið í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert