„Talibanar Sjálfstæðisflokksins“ eru þeir einu sem staðið hafa í vegi fyrir afgreiðslu stjórnarráðsfrumvarpsins á Alþingi Íslendinga, að mati Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra.
Össur sagðist undrast að „hreystimenni “ í stjórnarandstöðunni treystu sér ekki til að vaka tvær nætur vegna málsins.
Það sýndi að þau væru ekki hæf til að stjórna landinu. Það væri svo sem ágætt, í ljósi þess að stjórnarandstaðan væri ekki á leið með að fara að taka við stjórnartaumunum í landsmálunum.
Þá sakaði Mörður Árnason, flokksbróðir Össurar, stjórnarandstöðuna um „sýndarandsvör“ í umræðum um frumvarpið.
Loks sakaði Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingar, stjórnarandstöðuna um að halda þinginu í „gíslingu“ með „ofbeldi“. Ekki sé að undra að „virðing Alþingis sé í frjálsu falli líkt og gengi krónunnar um árið“.