„Forsætisnefnd Alþingis þarf að efna til námskeiðs í mannasiðum fyrir alþingismenn... Þessi ábending um að kenna þingmönnum mannasiði er sett fram í fullri alvöru,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í tilefni af gífuryrðum í þingsal Alþingis síðustu daga.
Eins og rakið var á fréttavef Morgunblaðsins í gær fór Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, niðrandi orðum um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, í ræðustól Alþingis.
Styrmir skrifar á vef Evrópuvaktarinnar að ekki gangi að þingmenn uppnefni andstæðinga sína.
„Forsætisnefnd Alþingis þarf að efna til námskeiðs í mannasiðum fyrir alþingismenn. Orðbragð sumra þeirra í ræðustól á Alþingi er með þeim hætti að slíkt námskeiðshald er óhjákvæmilegt. Í gær talaði einn þeirra um forseta Íslands sem „forsetaræfil“, annar fullyrti að einn nafngreindur samþingsmaður hans væri „geðklofi“ ( sá hinn sami ætti að sjá sóma sinn í því að tala af meiri virðingu um alvarlega sjúkdóma fólks) og sá þriðji gerði greindarstig þingmanna stjórnarandstöðunnar að umtalsefni og taldi ljóst að það væri fyrir neðan meðallag.
Er fólk kosið á þing til að stunda svona málflutning? Eru þingmenn á launum hjá skattgreiðendum við þessa iðju? Þessi ábending um að kenna þingmönnum mannasiði er sett fram í fullri alvöru,“ skrifar Styrmir.