10% afsláttur fyrir konur

VR stendur fyrir átaki í kjölfar niðurstaðna úr launakönnun sem gerð var á vegum félagsins. Þar kemur í ljós að launamunur kynjanna er um 10% og hefur staðið í stað síðastliðin þrjú ár.

Að meðaltali eru stjórnendur og sérfræðingar með 527 þúsund á mánuði í heildarlaun á meðan sá sem afgreiðir á kassa í verslun er með 247 þúsund á mánuði í heildarlaun.

Hefur VR ákveðið að skera upp herör gegn  kynbundnum launamun og skorar á atvinnurekendur að leiðrétta það misrétti sem felst í að greiða konum að jafnaði 10% lægri laun en körlum fyrir sömu vinnu. 

Fyrirtæki eru hvött til að lýsa stuðningi við átakið og að veita konum sérstakan 10% afslátt af vöru og þjónustu á tímabilinu 20.-26. september. Með því að bæta konum á þennan táknræna hátt 10% launamuninn leggja fyrirtækin sitt lóð á vogarskálarnar í þeirri vitundarvakningu sem nauðsynleg er til að útrýma launamisréttinu.  

VR mun vekja athygli á fyrirtækjunum sem taka þátt í átakinu með sérstökum auglýsingum sem birtar verða meðan átakið stendur yfir. Fyrstu viðbrögð benda til að undirtektir fyrirtækja verði góðar. Fyrirtækjum sem vilja taka þátt í átakinu er bent á að hafa samband við skrifstofur VR.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert