Breytingar á ráðuneytum þurfa samþykki þings

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. mbl.is / Hjörtur

Samkvæmt breytingum á stjórnarráðsfrumvarpinu sem kveðið er á um í samkomulagi ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu þarf forsætisráðherra að fá samþykki Alþingis fyrir breytingum á fjölda og heitum ráðuneyta. Kosið verður um frumvarpið að lokinni annarri umræðu nú í kvöld.

„Það sem breytist fyrst og fremst efnislega er það að í stað þess að fjöldi ráðuneyta og heiti séu í ákvörðunarvaldi forsætisráðherra þá verður nauðsynlegt að fá samþykki Alþingis áður en hann leggur fram tillögu um þessi atriði fyrir forseta. Þá þarf tillagan að hafa fengið samþykki Alþingis eftir reglum um þingsályktunartillögur,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fulltrúi hans í allsherjarnefnd.

Þannig sé tryggt það áhersluefni flokksins í umræðunni að breytingar á ráðuneytum þurfi alltaf að fá umræður og meðferð þingsins og stuðnings meirihluta þingmanna.

„Að þessu gefnu er samkomulag um að meðferð málsins haldi áfram og því væntanlega lokið ef það nýtur meirihluta í þinginu. Svo mun afstaða einstakra manna og flokka birtast í atkvæðagreiðslum,“ segir hann.

Atkvæðagreiðsla að lokinni annarri umræðu fer fram í kvöld og að líkindum fer lokaatkvæðagreiðsla um það fram á morgun eftir þriðju og síðustu umræðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert