ADHD-samtökin hófu í dag kynningarherferð og vitundarvakningu undir heitinu „Athygli, já takk!“ í tilefni af evrópskri vitundarviku um ADHD. Seld verða endurskinsmerki til fjáröflunar og tók Jón Gnarr borgarstjóri á móti þeim fyrstu. Bera merkin teikningar Hugleiks Dagssonar.
Markmið ADHD-vitundarvikunnar er að auka þekkingu almennings á ADHD, eyða fordómum, auka skilning og efla stuðning við fólk með ADHD með opinskárri og skammarlausri umfjöllun.
Efnt verður til fjáröflunar til handa ADHD-samtökunum og mun Krónan selja endurskinsmerki með teikningum Hugleiks Dagssonar. Með hverju endurskinsmerki fylgir örbæklingur með upplýsingum um ADHD. Vilja samtökin efla starf sitt með því að geta staðið að fjölbreyttari fræðslu og sinnt ólíkum hópum barna og fólks með ADHD. Auk þess að efla starfsemina á landbyggðinni.
Í vitundarvikunni verður öllum grunnskólum landsins færður fræðslupakki sem skólastjórnendur geta nýtt til fræðslu fyrir starfsfólk. Þá verður gefinn út grunnfræðslubæklingur um ADHD auk bæklinga um börn með ADHD, konur með ADHD og fullorðna með ADHD. Allir bæklingarnir verða sendir sveitarfélögum og heilsugæslustöðvum um land allt. Auk þess opna samtökin nýja heimasíðu með nýju merki.
Málþingið „Nýjar lausnir - ný sýn!“ verður haldið föstudaginn 23. september í Iðusölum frá kl. 13:00-17:00 þar sem kynnt verða verkefni sem sveitarfélög hafa staðið að er varða ADHD og börn. Þá verður vefforritið Fókus kynnt sem er sjálfshjálparforrit fyrir fullorðna með ADHD.