Skýring fékkst á því hvers vegna Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, var ítrekað truflaður þegar hann hélt ræðu sína á Alþingi fyrr í nótt. Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði sig og þingmenn Samfylkingarinnar hafa reynt að lifa sig inn í ræðuna og grípa inn í á réttum stöðum.
Árni Páll hafði á orði að menn hefðu tekið eftir því í þingsal að ræða Jóns hafi verið endurflutningur á ræðu hans fyrir tveimur dögum „og sýndi að eins og í leikhúsi fáránleikans þá er endurtekningin aldrei of oft endurtekin.“ Hann sagði ræðuna sögulega og að háttvirtir þingmenn stjórnarandstöðunnar mættu ekki taka það óstinnt upp þó hlegið væri á meðan ræður væru fluttar.
Þá lýsti Árni Páll tilburðum þeim sem urðu til þess að forseti Alþingis frestaði fundi til að fá þögn í salinn. „Auðvitað vorum við vitni af listrænu furðuverki þegar flutt var nokkurn veginn sama ræðan og flutt var fyrir tveimur dögum síðan. Og við vorum einfaldlega að reyna lifa okkur inn í þetta listræna stórvirki. Við vorum að reyna grípa inn í á réttum stöðum, reyna taka þátt í þessari endursköpun. Þetta var gerningur eins og hann glæstastur getur orðið.“
Í kjölfar ræðu Árna Páls kom Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, í ræðustól og fór fram á að forseti ávítti ráðherrann fyrir að kalla Alþingi leikhús fáránleikans. Henni varð þó ekki að ósk sinni.