Enginn grundvöllur fyrir aðgerðum Bandaríkjanna

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir hvorki lagalegan né vísindalegan grundvöll fyrir aðgerðum Bandaríkjanna vegna hvalveiða Íslendinga.

Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna útnefndi Ísland samkvæmt svonefndu Pelly-ákvæði í júlí sl. og lagði til við Bandaríkjaforseta að gripið yrði til diplómatískra aðgerða gegn Íslandi vegna hvalveiða Íslendinga. Forsetinn ákvað í gær að fara að tillögu viðskiptaráðherrans og tilkynnti jafnframt að ekki yrði gripið til neinna viðskiptalegra aðgerða, segir í tilkynningu frá ráðherranum.

„Fyrir liggur að hvalveiðar Íslendinga eru löglegar og alþjóðleg viðskipti þeirra með hvalaafurðir eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Jafnframt eru veiðar Íslendinga á hrefnu og langreyði sjálfbærar og byggðar á traustum vísindalegum grundvelli."

 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir bandarísk stjórnvöld ekki vera sjálfum sér samkvæm þegar þau gagnrýna annars vegar veiðar Íslendinga á langreyði en leiti hins vegar eftir stuðningi Íslands og annarra aðildarríkja Alþjóðahvalveiðiráðsins við veiðar Bandaríkjamanna á norðhval frá Alaska.

„Vísindaleg gögn sýni að langreyðarveiðar Íslendinga séu sjálfbærar engu síður en norðhvalsveiðar Bandaríkjamanna. Þess ber að geta að ákvörðun verður tekin um kvóta Bandaríkjanna á norðhval til fimm ára á ársfundi ráðsins í Panama á næsta ári og þurfa Bandaríkin stuðning 3/4 hluta aðildarríkjanna til að kvótinn verði samþykktur," segir í tilkkynningu frá ráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert